Láttu, fóstra, napurt um þá næða norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða. Feigum villtu sýn
þeim, sem vilja virkjum morðsins níða vammlaust brjóstið þitt.
Sýni þeim hver örlög böðuls bíða bernskuríkið mitt.
Þá hélt Jakobína áfram: Hvort var þá hlegið í hamri? Herskipin stefndu að landi, ögrandi banvænum öldum, Íshafs, við norðlæg fjöll. Sá það Hallur í hamri. Heyrði það Atli í bergi. Yggldi sig lækur í lyngmó, leiftraði roði á mjöll. Leituðu skotmarks í landi, langsæknir víkingar. Hugðust tækni tuttugustu aldar, tefla við Atla og Hall. Margþættri morðvisku slungin, menningin stórbrezk og vestræn skyldi nú loksins logum, leika um nes og fjall. Válega ýfruðu vindar, veifaði Núpurinn éljum, öskraði brimrót við björgin, boðandi víkingum feigð. Hljómaði hátt yfir storminn: Hér skal hver einasta þúfa varin, og aldrei um eilífð, ykkur til skotmarks leigð. Hertu þá seið í hamri, heiðni og fjölkynngi vanir. Bölþrungin blóðug hadda, byltist úr djúpi og hló. Reykmekkir, rauðir af galdri, risu úr björgum til skýja. Níðrúnir gýgur í gljúfri, grálynd á klettaspjöld dró. Hvort var þá hlegið í hamri? Hermenning stefndi frá landi óvíg gegn íslenskri þoku, ófær að glettast við tröll. Ljómuðu bjargbrúnir, brostu þá sund og víkur, föðmuðust lyng og lækur, logaði ósnortin mjöll. Hvílast nú Hallur og Atli. Hljótt er í bjargsölum. Enn er þó kurr í kyljum, klettur ýfist við hrönn. Geyma skal sögn og saga, sigur hornstrendskra vætta íslenskur hlátur í hamri , hljóma í dagsins önn. Það er skemmst frá að segja að skipin urðu að snúa frá vegna veðurs (!) |