Um VestFiðringVestFiðringur er verkefni í skapandi greinum sem dregur fram og vinnur með sérkenni mismunandi menningarsvæða Vestfjarða. VestFiðringur virkjar íbúana í söfnun upplýsinga um sérkenni í náttúrufari, umhverfi og menningu viðkomandi svæðis og birtir þær á netinu öllum til gagns. Í framhalinu eru sett af stað átaks- og þróunarverkefni fyrir öll menningarsvæðin þar sem heimafólk, sérfræðingar og fagfólk í skapandi greinum vinnur saman að nýsköpunarverkefnum. Verkefnin eru af margvíslegum toga og byggja á því efni sem safnast hefur í gagnagrunna VestFiðrings. Sumar og haust 2014 voru haldnir 17 fundir víðsvegar um Vestfirði þar sem fundagestir skráðu niður upplýsingar um viðkomandi menningarsvæði í fjórum flokkum. Svæðin sem unnið var með eru:
Á fundunum voru upplýsingar skráðar í eftirfarandi flokkum:
Hér á á heimsasíðunni er að finna þær upplýsingar sem söfnuðust. Þær eru settar inn nokkurn vegin eins og þær komu fram á fundunum. Efnið hefur lítið verið unnið fyrir birtingu hér nema teknar voru út endurtekningar og fært á milli flokka það sem augljóslega fór flokkavillt. Margt er enn óljóst og víða vantar útskýringar og haldbetri upplýsingar enda voru fyrstu fundirnir hugsaðir sem byrjun á verkefni sem myndi stækka og vaxa með tímanum. Allt er þetta opið hér inni til frekari vinnslu, þ.e. hver sem er, sem veit, kann og getur, má breyta og bæta við þær upplýsingar sem hér er að finna, sjá betur hér. Við hvetjum ykkur eindregið til að gera svo. Vestfirðir búa yfir óþrjótandi möguleikum. Landsvæðið er margbrotið, það er fámennt en býr yfir aldagamalli sögu sem sker sig úr á landsvísu og þó víðar væri leitað. Þessi efniviður hefur ekki verið kannaður nema að litlu leyti. Staðbundin þekking er gulls ígildi, hún er fjársjóður sem oft gleymist og hverfur í skuggann af hálærðum rannsóknarskýrslum. Almenningur gerir sér ekki alltaf grein fyrir hvað hann býr yfir merkilegum upplýsingum. Með því að leiða saman fólk með staðbundna þekkingu, fólk í skapandi greinum og sérfræðinga á ýmsum sviðum getur þessi fjársjóður margfaldast. VestFiðrings-verkefnið sprettur af þörf á skilgreiningu sjálfsmyndar mismunandi svæða innan svæðis sem oft er skilgreint sem eitt – Vestfirðir. Það skoðar staðbundinn menningararf; hvað er til staðar, hvernig á að fara með það og hvernig má miðla því, njóta og nýta á faglegan og arðbæran hátt. VestFiðringur kemur því til leiðar að sértækum verkefnum verði hrundið í framkvæmd sem byggja á þessum skilgreiningum og þeim upplýsingum sem verkefnið laðar fram. VestFiðringur vinnur sem hreyfiafl að því að leiða nýsköpunarverkefnin og sjá til þess að skapandi hugsun og fagmennska setji mark sitt á ferlið frá upphafi til enda. Vestfiðrings-verkefninu er skipt í þrjá áfanga: Upplýsingaöflun Átaks- og þróunarverkefni Kaupstefnur annað hvert ár Efnahagslegur ávinningur verkefnisins verður fyrst og fremst sá að ný og/eða bætt atvinnuskapandi starfsemi mun líta dagsins ljós vítt og breitt um fjórðunginn, með nýja vöru og þjónustu fyrir innlendan og erlendan markað sem þróuð hefur verið og kynnt á faglegan hátt með aðstoð sérfræðinga. Miklu magni upplýsinga hefur verið safnað saman til afnota fyrir íbúa svæðisins við áframhaldandi ímyndasköpun, stefnumótun og markaðssetningu fyrir svæðið. Í því sambandi má nefna kortlagningu ýmiss konar þjónustu, kortlagningu einstaklinga og hópa sem vinna við skapandi atvinnugreinar, atvinnusöguleg, landfræðileg, náttúrufræðileg og menningarsöguleg hugtök og sérkenni svæðisins í heild og mismunandi hluta þess, og svo mætti lengi telja. Verkefnið vinnur markvisst að því að auka þekkingu, örva nýsköpun og þjálfa þátttakendur í vöruþróun og gæðastjórnunarferli sem verður til þess að auka samkeppnisfærni í ferðaþjónustu, en ferðafólki fer ört fjölgandi á svæðinu og íbúar þurfa að vinna heimavinnuna sína til þess að þessi aukning skilji sem mest eftir sig. Ekki síður hafa í hendi sér upplýsingar sem stuðla að sem raunsannastri upplifun gesta af svæðinu. Verkefnið byggir á samvinnu margra mismunandi aðila innan svæðis og utan og megin markmið þess er að leita uppi og byggja við það sem er til staðar og efla þannig svæðisbundna sérþekkingu á því sviði sem sterkast er á hverjum stað. Verkefnið mun nota viðurkenndar aðferðir skapandi greina til að þróa hugmyndir sínar, byggðar á sérkennum svæðisins. Það mun örva nýsköpun og stýra þróunarstarfinu með hágæðakröfur að leiðarljósi þannig að til verði nýjar vörur og/eða þjónusta sem leiða af sér ný atvinnutækifæri. Elísabet Gunnarsdóttir er hugmyndasmiður VestFiðrings. Verkefnið hlaut styrk úr Vaxtasamningi Vestfjarða 2013 og núverandi samstarfsaðilar eru Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Vinnumálastofnun, Bæjar- og sveitarfélög, auk smærri aðila. Um framkvæmd þeirra margvíslegu staðbundnu verkefna sem veljast til útfærslu í 2. áfanga verður leitað samstarfs við fagfélög á sviði skapandi greina og viðeigandi mennta- og menningarstofnanir. |